Elva Hrönn skrifaði færslu á Facebook í dag um fréttir af því að Ragnar Þór muni skipa oddvitasæti fyrir Flokk fólksins í komandi kosningum.
„Það kemur ekkert á óvart og sást hvílíkan stuðning hann hafði til dæmis frá þeim flokki þegar ég bauð mig fram gegn honum í formannskosningum VR 2023 og þingkona flokksins nýtti hvert tækifæri til að ata mig auri,“ skrifar hún í færslunni.
Elva á vafalaust við Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þingmann Flokks fólksins, sem studdi Ragnar í formannsslagnum og skrifaði skoðanagreinina „VR eða VG?“ þar sem hún sakaði Elvu um aðdróttanir í garð Ragnars og sagði hana fulltrúa Vinstri grænna.
Áhugavert og siðlaust
Elva segir einnig í færslu sinni að það sé áhugavert og siðlaust að hennar mati að Ragnar skuli segja að framboðið komi ekki til með að hafa áhrif á stöðu hans sem formanns VR.
„Ætlar maðurinn virkilega að halda áfram að starfa sem formaður VR (ekki stíga til hliðar á meðan) og vera þar á launum á meðan hann er í framboði??“ skrifar hún.
Það sé sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Ragnar hafi lýst því yfir að hún væri of pólitísk til að sinna störfum fyrir VR á sínum tíma.
„Og nú fer maðurinn í framboð á launum sem formaður VR. Hræsnin á sér engin takmörk!“ skrifar hún að lokum.