Innlent

Kosningapallborð: Ný­liðar í lands­mála­pólitík mætast

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Ólafur Adolfsson lyfsali og fyrrum fótboltakempa, Snorri Másson fjölmiðlamaður og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR verða gestir í Kosningapallborðinu á Vísi í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Ólafur Adolfsson lyfsali og fyrrum fótboltakempa, Snorri Másson fjölmiðlamaður og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR verða gestir í Kosningapallborðinu á Vísi í dag. Vísir/Vilhelm

Framboðslistar stjórnmálaflokkanna eru jafnt og þétt að taka á sig mynd fyrir komandi alþingiskosningar. Fjölmargir þjóðkunnir einstaklingar hafa þegar stigið fram og lýst áhuga á að taka sæti á Alþingi og kosningamaskínur flokkanna komnar í fullan gang.

Í kosningapallborð fréttastofunnar í dag fær Elín Margrét Böðvarsdóttir fréttamaður til sín gesti sem eiga það sameiginlegt að vera þekkt andlit úr öðru samhengi en af vettvangi stjórnmálanna. Nú hafa þau hins vegar öll tekið sæti á lista og gefa kost á sér til Alþingis.

Þetta eru þau Snorri Másson fjölmiðlamaður, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Ólafur Adolfsson lyfsali og fyrrum fótboltakempa og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Snorri sækist eftir oddvitasæti hjá Miðflokknum í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, Ragnar Þór mun leiða Flokk fólksins í Reykjavík norður, Ólafur leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og Sólveig Anna gefur kost á sér í þriðja sæti hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður.

Öll hafa þau látið að sér kveða í þjóðmálaumræðu, hvert með sínum hætti, en í pallborðinu fáum við að kynnast þeim sem stjórnmálamönnum. Við ræðum kosningabaráttuna framundan, málefnin, stöðu flokkanna og aðdraganda þess að þau ákváðu að gefa kost á sér á lista.

Kosningapallborðið er í beinni útsendingu á Vísi og í sjónvarpinu á Stöð 2 Vísi og hefst klukkan 14:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×