Í samandregnum árshlutareikningi Landsbankans, sem var birtur í dag, segir að hagnaður samstæðu Landsbankans hafi numið 26,9 milljörðum króna á árinu en hafi numið 22,4 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra.
Arðsemi eigin fjár hafi verið 11,7 prósent, samanborið við 10,5 prósent í fyrra, en bankinn hafi væntingar um að arðsemin á fjárhagsárinu verði á bilinu 11 til 13 prósent. Hlutfall kostnaðar af tekjum hafi verið 32,3 prósent, samanborið við 34,6 prósent í fyrra.
Góð ávöxtun í háu vaxtaumhverfi
Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu hafi numið 44.090 milljónum króna og haldi áfram að aukast með góðri ávöxtun lausafjár í háu vaxtaumhverfi ásamt því sem efnahagsreikningur bankans fari stækkandi. Aukning hreinna vaxtatekna nemi 3,1 prósent á milli ára.
Hreinar þjónustutekjur hafi numið 8.068 milljónum króna og dragist saman um 0,2 prósent á milli ára. Hreinn hagnaður af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði hafi numið 7.502 milljónum króna, samanborið við 2.251 milljónir króna í fyrra, og sé tilkominn vegna hækkunar bæði á gangvirði hlutabréfa og skuldabréfa.
Starfmönnum fækkaði um níu
Hrein virðisrýrnun fjáreigna hafi numið 2.018 milljónum króna á tímabilinu en 1.839 milljónum krónum í fyrra.
Laun og launatengd gjöld hafi numið 12.005 milljónum króna og aukist um 4,1 prósetn á milli ára, einkum vegna samningsbundinna launahækkana. Meðalfjöldi ársverka á tímabilinu hafi verið 807, samanborið við 816 í fyrra.
Bankinn í sókn
Í tilkynningu bankans til Kauphallar er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að uppgjörið endurspegli traustan rekstur og aukin umsvif.
„Bankinn er í sókn á öllum sviðum og þjónustutekjur eru sterkar, enda höfum við lagt áherslu á að bæta við nýjum þjónustuþáttum og auka hlutdeild bankans. Sífelld þróun á Landsbankaappinu og nýjungar skila sér greinilega í aukinni notkun, ekki síst á meðal ungs fólks. Þetta á til dæmis við um lífeyrissparnað, en samningum um viðbótarlífeyrissparnað við ungt fólk fjölgaði um 17,3% eftir að þessum möguleika var bætt við í appinu.“