Í færslu á Facebook segir Andrés Ingi að kjörstjórn hafi boðið honum annað sæti í öðru hvoru kjördæminu en með því hefðu þeir Björn Leví Gunnarsson verið tveir karlmenn á fimmtugsaldri í efstu tveimur sætunum. „Sem mér finnst ekki hægt að bjóða kjósendum upp á,“ segir Andrés Ingi.
Hann hafi því ákveðið að biðja kjörstjórn að setja hann í þriðja sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.
„Þar verð ég á eftir Lenyu og Halldóru, öflugum stjórnmálakonum sem ég hlakka til að vinna með í skemmtilegri kosningabaráttu framundan. Prófkjörið skilaði ótrúlega flottum listum hjá Pírötum um allt land. Nú þarf bara að minna kjósendur á hversu mikilvægt er að hafa sterkan hóp Pírata inni á þingi eftir kosningar – og helst í ríkisstjórn.“
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hafnaði í fimmta sætinu í prófkjörinu og færist með þessu upp í annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Ekki hefur náðst í Dóru Björt við vinnslu fréttarinnar.