„Þetta leggst vel í mig. Þetta er hörku andstæðingur. Frábært lið, sennilega besta lið í heimi. Við fáum erfiða leiki í þessu verkefni og það verður spennandi að takast á við það. Verður mjög krefjandi fyrir okkur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands um komandi leiki gegn Bandaríkjunum í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ og má sjá hér fyrir neðan:
Þorsteinn hefur lengi vel kallað eftir því að íslenska landsliðið spili æfingarleiki gegn sterkari andstæðingum og andstæðingurinn í þessu verkefni gerist vart mikið sterkari. En hvað gefa þessir leikir liðinu?
„Þeir hjálpa okkur við að bæta okkur sem lið og að takast á við krefjandi aðstæður. Það að allir leikir séu krefjandi fyrir okkur hjálpar okkur bara í því að verða betri. Það að við séum í þannig aðstæðum að við þurfum alltaf að takast á við hluti sem eru erfiðir. Það að andstæðingurinn sé svona góður krefst þess af okkur að við þurfum að spila okkar besta bolta, spila góða leiki til að ná í góð úrslit. Spilamennska okkar gegn þessu bandaríska liði þarf að vera góð til að við náum í góð úrslit.“
Framundan eru mikilvægir mánuðir hjá íslenska landsliðinu sem hefur keppni í A-deild Þjóðadeildar UEFA í upphafi næsta árs. Svo tekur við stórmót hjá liðinu, Evrópumótið í Sviss sem hefst 2.júlí. Aðspurður hvernig að hann horfi á komandi æfingaleiki gegn Bandaríkjunum upp á framhaldið að gera hjá íslenska landsliðinu hafði Þorsteinn þetta að segja:
„Við horfum á þetta þannig að við erum að þróa liðið áfram. Við eigum leiki í Þjóðadeildinni áður en að Evrópumótinu kemur. Þjóðadeildin er okkur mikilvæg. Við höldum áfram að þróa okkur, verða betri, það er raunverulega markmiðið með þessu verkefni. Að gefa leikmönnum tækifæri og verða betri.“
Þorsteinn segir stöðuna á leikmannahópnum vera góða. Allir leikmenn Íslands eru klárir í slaginn fyrir utan markvörðinn Fanney Ingu sem fékk höfuðhögg á æfingu og mun ekki geta tekið þátt í verkefninu. Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving hefur verið kölluð inn í hópinn í hennar stað.
Þá gaf Þorsteinn það til kynna í viðtalinu að hann muni hrófla mikið í byrjunarliði Íslands milli leikja gegn Bandaríkjunum.
„Þeir leikmenn sem hafa verið að spila minna fyrir okkur upp á síðkastið munu fá fleiri mínútur í þessu verkefni.“