Svæðin sem um ræðir er Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður og Miðhálendið. Á Suðurlandi tekur viðvörun gildi klukkan sex í fyrramálið. Þar er búist við að vindhraði verði allt að 20 metrar á sekúndu og þá hvassast vestantil, til dæmis í Grindavík. Þá eru einnig líkur á snjókomu eða slyddu á Hellisheiði og versnandi færð þar.
Við Faxaflóa tekur viðvörun gildi klukkutíma síðar, eða klukkan sjö og þar verður hvassast á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Þar eru ökumenn varaðir við vindhviðum og þeir beðnir um að fara varlega.
Við Breiðafjörð verður suðaustanstormur eða jafnvel rok þar sem vindur gæti farið í 25 metra á sekúndu. Hvassast verður á Snæfellsnesi. Svipað veður verður á Miðhaálendinu og þar er varað við ferðalögum.
Veðrið gengur nokkuð hratt yfir og falla viðvaranir, ef spár ganga eftir, úr gildi á milli klukkan tíu og ellefu á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði og klukkan fjögur síðdegis á Miðhálendinu.