Skoðun

Menntaumræða á villi­götum

Gunnlaugur Magnússon skrifar

Ljóst er að menntamál er eitt af aðalatriðum kosningabaráttu ársins en menntun yngri kynslóða þarfnast svo sannarlega betri stjórnunnar en hingað til hefur verið beitt. Sem dæmi má nefna tilraunir ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar til að finna lausnir á vandamálum skólanna, annars vegar með því að leggja niður stofnanir og stofna nýjar, hins vegar með því að velta fyrir sér nýjum breytingum á lengd náms þrátt fyrir að reynslan af síðustu breytingum sé enn fersk og varla í takti við þau markmið sem sett voru upp. Þá má einnig nefna þá gagnrýni sem ummæli borgarstjóra Reykjavíkur um kennarastéttina vöktu, en þar er lýst takmörkuðum skilningi á stöðu kennarastéttarinnar og virðingarleysi gangvart störfum kennara. 

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptaráðs kom þó fram með tölur til að staðfesta mál borgarstjórans. Því ber að fagna þegar menntaumræðan fer fram grundvölluð í gögnum en ég hef ákveðnar athugasemdir við túlkun og framsetningu Viðskiptaráðs á þeim tölum sem lagðar voru fram.

Tölurnar sem Viðskiptaráð setur fram hvað varðar fjölgun kennara og nemenda koma frá vef Hagstofunnar sem býður fram á útreikninga á einmitt þessum breytum og ártölum. Ártalið 1998 er byrjunarreitur útreikningsins og þar sem Hagstofan sýnir ekki eldri gögn eru sviptingar fyrri ára ósýnileg í tölunum, til dæmis hver áhrifin voru á kennarastéttina þegar þau urðu starfsfólk sveitarfélaganna og ekki ríkisstarfsmenn seint á síðustu öld. 

Við frekari rýni segja bæði eldri tölur frá Hagstofunni sem og þær sem Viðskiptaráð setur fram flóknari sögu en gefið er í skyn í grein ráðsins. Til dæmis fjölgaði nemendum per stöðugildi kennara frá 2008 til 2012 og ef nýjustu tölur Hagstofunnar eru skoðaðar má sjá stöðuga fækkun kennara milli 2008 til 2016. Fjöldi kennara í varð ekki sambærilegur við 2008 fyrr en árið 2017 þrátt fyrir stöðuga aukningu nemenda yfir allt tímabilið. Samtímis hefur nemendum með flóknari þarfir og erlendan bakgrunn fjölgað og einmitt þar má finna lógíska útskýring á aukinni þörf fyrir starfsfólk í skólakerfinu.

Að lokum stinga þessar breytingar með aukningu kennara og fækkun nemenda ekki sérstaklega í stúf í samanburði við önnur OECD lönd samkvæmt skýrslunni sem vitnað er til, Education at a Glance 2024. Framsetning Viðskiptaráðs um fjölgun nemenda og starfsfólks er með öðrum orðum ekki nákvæm þótt tölurnar séu ekki rangar.

Það sama má segja um tölurnar sem Viðskiptaráð setur fram um veikindahlutföll kennara á Íslandi og um starfsálag þeirra í alþjóðlegu samhengi. Því ber að fagna að Viðskiptaráð veiti óvenju háu veikindahlutfalli kennara athygli og einnig að vísað sé í starfsaðstæður sem mögulega skýringu. Það virðist hinsvegar þversagnakennt að samtímis tala um að kennarar hafi fjölgað um of, séu með of fáa nemendur og alltof litla kennsluskyldu. Sérstaklega í ljósi rannsókna um kulnun í stéttinni og starfsálag kennara.

Viðskiptaráð segir einnig íslenska grunnskólakerfið dýrt í samanburði við önnur OECD lönd. en flækjustigið er aftur meira en virðist af samanburðinum. Það að íslenskt samfélag fjárfesti mikið í menntakerfinu er hins vegar er bæði jákvætt og til fyrirmyndar, enda væri það að vera við meðaltal á lista OECD þar sem fjöldi landa fjárfestir lítið í menntun íbúa sinna varla eftirsóknarvert fyrir metnaðarfullt þekkingarsamfélag. Það er hins vegar mjög augljós útskýring á að að dreifstýrt menntakerfi Íslands með fjölda örsmárra sveitarfélaga sé dýrt per nemenda eða með færri nemendur per kennara að meðaltali miðað við OECD.

Á Íslandi eru enda einungis örfá sveitarfélög með bolmagn til að byggja upp hagkvæmt stuðningskerfi við skólana en í tölunum um kostnað kerfisins er sveitarfélögum eins og Reykjavík með 140.000 íbúa og Bolungarvík með tæpa 1.000 íbúa blandað saman. Fyrir vikið munu öll meðaltöl um kostnað og umfang kerfisins á landsvísu vera há, sérstaklega í samanburði við mun stærri lönd. Viðskiptaráð segir í síðari ummælum á að sú staða sé afleiðing pólitískra ákvarðana sem gætu verið öðruvísi. Ég er auðvitað sammála því en bendi á að út frá þeim tölum sem settar eru fram mætti færa rök fyrir að ríkið ætti að taka til sín ábyrgðina á fjármögnun og stjórn skólakerfisins til að nýta úrræðin betur.

Athugasemdirnar við tölur Viðskiptaráðs er engin afneitun á því að íslenskt menntakerfi eigi við mörg vandamál að glíma, ekki síst hvað varðar nýliðun og heilbrigði í kennarastétt, aðgengi að leikskólum með menntað starfsfólk, vellíðan nemenda og læsi þeirra sem og skort á innlendum verkfærum til að meta menntakerfið. Að sjálfsögðu tek ég sem stunda rannsóknir á menntamálum undir það að rannsaka beri bæði vandamálin og mögulegar lausnir á þeim vel og vandlega, sérstaklega þegar það kemur að starfsaðstæðum kennara sem gerir þá veikari en aðrar stéttir.

Færa má rök fyrir því að þessi vandamál eigi rætur sínar í stjórnun kerfisins. Menntamálapólitík á Íslandi er nefnilega oft óreiðukennd, einkennist af ráðherraræði og að eigin sögn skorti á fagmennsku, skorti á víðari markmiðum til lengri tíma, einkennist oft af innflutningi á hugmyndafræði og hugtakasafni alþjóðlegra stofnana (eins og OECD), byggir meira á metnaðarfullum klisjum en mælanlegum markmiðum og virðingarleysi gagnvart kennurum er landlægt.

Víða er pottur brotinn í menntamálum en það þarf að skoða það sem afleiðingu stjórnunar kerfisins því kennarastéttin hefur það alveg áreiðanlega ekki of náðugt í vinnuni.

Höfundur er dósent við Menntavísindadeild Uppsalaháskóla.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×