Innlent

Fleiri vilja sjá Þór­dísi eða Guð­laug leiða í stað Bjarna

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Töluvert fleiri vilja sjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra eða Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, leiða Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum í stað Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, ef marka má nýja skoðanakönnun.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun Prósents sem var unnin fyrir nýjasta þátt Bakherbergisins, hlaðvarp um stjórnmál, en þátturinn kemur út seinna í kvöld á streymisveitunum Spotify og Apple Podcasts. 

1.242 manns tóku þátt í könnuninni þar sem spurt var: „Hver myndir þú vilja að væri formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi alþingiskosningar?“ 

404 manns tóku ekki afstöðu í könnuninni en stærstur hluti þeirra 838 sem tóku afstöðu vildu sjá Guðlaug eða Þórdísi leiða flokkin. 

Í könnuninni svara 31 prósent þátttakanda sem taka afstöðu að þau myndu vilja sjá Þórdísi sem formann en nítján prósent svara að Guðlaugur Þór ætti að vera formaður flokksins. Aðeins sextán prósent svara því að Bjarni ætti áfram að leiða flokkinn.

Jafn margir eða sextán prósent segja að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ætti að vera formaður flokksins. Á eftir henni koma Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra bæði með átta prósent. 

Skjáskot úr könnun Prósent.Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×