Erlent

Jafnaðar­menn í Litháen unnu sigur

Atli Ísleifsson skrifar
Vilija Blinkeviciute, leiðtogi litháískra Jafnaðarmanna, fagnaði í gær.
Vilija Blinkeviciute, leiðtogi litháískra Jafnaðarmanna, fagnaði í gær. AP

Jafnaðarmannaflokkurinn í Litháen, sem hefur verið í stjórnarandstöðu síðustu ár, hlaut flest atkvæði í þingkosningunum sem fram fóru þar í landi í gær. Kristilegir demókratar, með formanninn Gabrielius Landsbergis í broddi fylkingar, hefur viðurkennt ósigur.

Samkvæmt tölum frá landskjörstjórn í Litháen hafa Jafnaðarmenn tryggt sér 52 þingsæti þegar búið er að telja um 99 prósent atkvæða, en alls á 141 þingmaður sæti á þinginu. Kristilegir demókratar hafa á sama tíma tryggt sér 28 þingsæti.

Í frétt DW segir að kosningabaráttan hafi að stórum hluta snúist um stríðið í Úkraínu og aukinn framfærslukostnað almennings.

Vilija Blinkeviciute, leiðtogi Jafnaðarmanna, segir að hún telji að Jafnaðarmenn muni ná að mynda meirihluta á þinginu með öðrum flokkum – Fyrir Litháen, Bændaflokknum og Græningjum.

Hún segir niðurstöður kosninganna sýna fram á að Litháar, hvort sem þeir búi í stórborgum eða landsbyggð, vilji breytingar. Hún stefni sjálf að því að verða næsti forsætisráðherra landsins.

Í Litháen fara þingkosningar þannig fram að helmingur þingsins er valinn í hlutfallskosningum og hinn helmingurinn er valinn í öðrum kosningum þar sem kosið er milli tveggja efstu innan kjördæmis. Fyrri umferð kosninganna fóru fram 13. október síðastliðinn.

Ingrida Šimonytė hefur verið forsætisráðherra landsins frá árinu 2020. Vinsældir stjórnar hennar hafa minnkað jafnt og þétt síðustu ár, sér í lagi vegna óánægju almennings með háar verðbólgutölur, ýmis pólitísk hneykslismál og sömuleiðis hvernig brugðist var við í heimsfaraldri kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×