Innlent

Inga Sæ­land ætlar með Flokk fólksins upp í fimm­tán prósent

Jakob Bjarnar skrifar
Inga Sæland leikur við hvurn sinn fingur í Samtalinu hjá Heimi Má. Hún er kát og má vera það. Hún telur Maskína vanmeta þá bylgju sem hún finnur með Flokki fólksins og stefnir ótrauð með hann í fimmtán prósent.
Inga Sæland leikur við hvurn sinn fingur í Samtalinu hjá Heimi Má. Hún er kát og má vera það. Hún telur Maskína vanmeta þá bylgju sem hún finnur með Flokki fólksins og stefnir ótrauð með hann í fimmtán prósent. vísir/vilhelm

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er að vonum afar ánægð með niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Maskínu. Hún má vera það.

„Ég er afskaplega ánægð, bjartsýn og brosandi. Ég finn vel þessa bylgju af hlýju og hvatningu hvert sem ég kem. Við getum ekkert annað en verið bjartsýn. Þetta gefur ákveðin fyrirheit um það sem raunverulega er að gerast í þjóðarsálinni og mér þykir afskaplega vænt um þetta,“ segir Inga.

„Það var yndislegt að hafa Jakob“

Svo virðist sem breytingar á oddvitum kjördæmanna séu að falla vel í kramið hjá þeim sem svara í könnuninni?

„Já. Veistu um einhvern sem ekki hefur breytt einhverju í sínum listum hjá þessum flokkum? Mér finnst ánægjulegt hversu mikillar athygli við höfum fengið að njóta vegna þessa en það er meginþemað hjá öllum að reyna að tefla fram þeim sem eru farsælastir fyrir sitt framboð. Annað væri ekki skiljanlegt.“

Fyrst Inga nefnir þetta er ekki úr vegi að spyrja hana út í viðbrögð Jakobs Frímanns Magnússonar sem sagði sig úr flokknum í kjölfarið og sendi frá sér yfirlýsingu sem skilja má á ýmsa vegu, þar sem hann talar meðal annars um lýðræðisleg vinnubrögð og hreinskiptni?

„Ég er ekkert sammála Jakobi. Við höfum verið hreinskiptin. Hér eru lýðræðisleg vinnubrögð. Við erum yfirleitt 12 til 14 saman sem komum að helstu ákvörðunum, við erum bara ein stór hamingjusöm fjölskylda og við ætlum bara að stækka hana. Það var yndislegt að hafa Jakob,“ segir Inga að þannig hún hafi ekki upplifað það sem hann segir, ekki á neinum tímapunkti.

Mikið af atkvæðum detta dauð niður

Samkvæmt könnuninni eru nú sex flokkar á þingi, hvar Framsóknarflokkurinn er minnstur. Hvernig verður að skrúfa saman ríkisstjórn?

„Sko, mér sýnist það falla rosalega á því hvað dettur mikið dautt af atkvæðum. Það skekkir það myndina. Flokkarnir þurfaekki að ná fimmtíu prósentum heldur meirihluta á þinginu. Þetta býður upp á ýmsa möguleika.“

Inga segir að ef mikið af atkvæðum detti niður dauð og ómerk þá hagnist þeir helst á því sem stærstir eru fyrir á því.

„Því hefur verið haldið fram að þeim mun færri flokkar þeim mun auðveldara að mynda ríkisstjórn. Þó þetta gefi vísbendingu um hreyfinguna á fylginu þá á margt eftir að breytast, held ég. Við eigum til dæmis eftir að fara upp í 15 prósent. Hvað finnst þér um það?“

Telur Flokk fólksins eiga mikið inni

Það væru fréttir.

„Stærsti hópurinn okkar er ekki að svara þessu, þessum netkönnunum. Okkar kjósendur eru yngstu kjósendur og svo þeir elstu. Okkar sterkasta vígi eru 18 til 25 ára og svo eldra fólkið,“

Inga segir Maskínu hafa vanmetið Flokk fólksins og hana minnir að Heimir Már Pétursson hafi veifað framan í oddvitana 5,3 prósentum, að Flokkur fólksins væri að berjast fyrir lífi sínu og hvernig henni liði með það?

„Þá fengum við sex kjördæmakjörna þingmenn og tæp 9 prósent. Þetta hefur alltaf verið svona. En þetta er í fyrsta skipti sem ég finn fyrir tilfinningu að það sé meira satt á ferðinni, ég skildi aldrei þessa könnun. Þetta er miklu stærri bylgja sem við erum að taka í fangið núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×