Sport

Rotaðist á marklínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marókkómaðurinn Youssef Benhadi hljóp slysalaust í meira en klukkutíma en rann svo á hausinn í markinu.
Marókkómaðurinn Youssef Benhadi hljóp slysalaust í meira en klukkutíma en rann svo á hausinn í markinu. @RUN_IX

Árlegt hlaup á milli frönsku borganna Marseilles og Cassis endaði afar slysalega.

Fyrstu menn í hlaupinu í ár fengu nefnilega báðir skell á marklínunni og annar þeirra mun verri skell en hinn.

Hlaupið er tuttugu kílómetra hlaup á milli borganna á suðurströnd Frakklands en það hefur verið haldið frá árinu 1979. Sjö hundruð manns tóku þátt í fyrsta hlaupinu en nú taka þátt tólf þúsund hlauparar.

Rúandamaðurinn Félicien Muhitira vann hlaupið í ár en hann rann á rassinn þegar hann kom í markið. Það var eitthvað sleipt í markinu en Muhitira slapp þó mun betur en Marókkómaðurinn Youssef Benhadi sem kom annar í mark.

Benhadi flaug nefnilega bókstaflega á hausinn í markinu og tókst rota sjálfan sig á marklínunni þegar hann skall illa aftur á hnakkann.

Benhadi komst fljótt til meðvitundar en slapp örugglega ekki við heilahristing.

Muhitira kláraði hlaupið á einni klukkustund, einni mínútu og 38 sekúndum. Hann var talsvert á undan Benhadi sem kláraði á einni klukkustund, þremur mínútum og sextán sekúndum.

Benhadi varð því ekki vitni af því þegar Muhitira flaug á hausinn og hafði því ekki hugmynd um „hálkuna“ í markinu.

Hér fyrir neðan má sjá þennan slysalega endi á hlaupinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×