Fótbolti

Erin frá Stjörnunni til Kanada

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erin í leik með Stjörnunni.
Erin í leik með Stjörnunni. Vísir/Diego

Markvörðurinn Erin McLeod hefur samið við Halifax Tides FC í Kanada, heimalandi sínu. Hún mun því ekki spila áfram hér á landi en undanfarin tvö ár hefur Erin spilað með Stjörnunni í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Erin kom fyrst hingað til lands árið 2020 og spilaði þá átta leiki með Stjörnunni. Hún sneri aftur á síðasta ári en þá var maki hennar, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, einnig leikmaður Stjörnunnar.

Íslenska landsliðskonan lagði skóna á hilluna fyrir tímabilið í ár en Erin hélt áfram að spila þrátt fyrir að vera komin á fertugsaldurinn. Hún virðist ekki á þeim buxunum að leggja hanskana á hilluna og hefur nú samið við lið í heimalandi sínu. Erin á að baki 119 A-landsleiki fyrir Kanada en hefur aldrei spilað í efstu deild þar í landi.

„Ég hef viljað spila hér, í þessari deild, síðan ég var krakki. Ég er 41 árs ung og það er raunveruleikinn en ég vil halda áfram að spila. Ég er spennt að geta framlengt ferilinn sem og að koma heim,“ sagði hin kanadíska Erin í viðtali eftir að skiptin voru staðfest.

Erin hefur spilað í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Þýskalandi og á Íslandi en mun nú loks taka spila í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×