Fótbolti

UEFA dælir 150 milljörðum í eflingu fót­bolta kvenna

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru í hópi atvinnumanna í fótbolta kvenna í Evrópu - hópi sem á að telja að lágmarki 5.000 manns árið 2030.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru í hópi atvinnumanna í fótbolta kvenna í Evrópu - hópi sem á að telja að lágmarki 5.000 manns árið 2030. vísir/Anton

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, kynnti í dag áætlanir sínar um að efla enn frekar knattspyrnu kvenna í álfunni á næstu sex árum.

UEFA ætlar að verja einum milljarði evra í verkefnið, eða sem samsvarar tæplega 150 milljörðum króna, fram til ársins 2030.

Peningarnir eiga bæði að renna í grasrótarstarf hjá aðildarsamböndum á borð við KSÍ en einnig í að efla og bæta mót og keppnir UEFA.

UEFA segir markmiðið skýrt um að fótbolti verði vinsælasta liðsíþróttin hjá konum og stelpum í öllum löndum Evrópu, og að til verði enn fleiri atvinnumenn og atvinnumannadeildir fyrir konur.

Á næstu sex árum ætlar UEFA því að stuðla að fjölgun kvenna á öllum stigum fótboltans, bæði leikmönnum, þjálfurum og dómurum, og sjá til þess að í álfunni verði að minnsta kosti sex kvennadeildir algjörlega skipaðar atvinnumönnum. Þá er ætlunin að hið minnsta 5.000 fótboltakonur verði atvinnumenn í Evrópu árið 2030.

Næsta Evrópumót kvenna er í Sviss næsta sumar, þar sem Ísland verður meðal þátttakenda. Meistaradeild Evrópu verður svo með nýju sniði frá og með næstu leiktíð, í anda nýju Meistaradeildarinnar hjá körlunum, og önnur Evrópukeppni fyrir kvennaliðin hefst einnig á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×