Landsréttur kveður þó á um lægri bætur en kveðið var á um í héraðsdómi til Vinnslustöðvarinnar. Þar voru þær samanlagt 515 milljónir til Vinnslustöðvarinnar en eru núna um 269,5 milljónir.
Dómar Landsréttar voru birtir síðdegis í dag. Þar kemur fram að kröfur Vinnslustöðvarinnar fyrir árin 2011 og 2012 voru fyrndar en ríkinu gert að greiða bætur vegna áranna 2013 til 2018. Dómur Héraðsdóms um Hugin stendur óraskaður og er því ríkinu gert að greiða Hugin um 329 milljónir í bætur með vöxtum. Samanlagt þarf ríkið því að greiða um 625,5 milljónir í bætur.
Vinnslustöðin og Huginn stefndu ríkinu en Vinnslustöðin keypti svo Huginn árið 2021 á meðan málsókninni stóð.
Forsaga málsins er sú að sjö fyrirtæki kröfðust rúmlega tíu milljarða króna af íslenska ríkinu vegna aflaheimildanna. Fimm af fyrirtækjunum sjö féllu frá málsókn sinni til að sýna samstöðu vegna kórónuveirufaraldursins. Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes féllu frá málsókninni en Huginn og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum héldu henni til streitu.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna þess að Huginn og Vinnslustöðinni hefði verið úthlutað minni aflaheimildum á þessu tímabili en skylt var samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.