Neytendur

Megi troða „singles day“ upp í greiðslugáttirnar á sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bragi Valdimar ásamt öðrum áhugamanni um íslenskt mál, tónlistarmanninum Friðriki Ómari.
Bragi Valdimar ásamt öðrum áhugamanni um íslenskt mál, tónlistarmanninum Friðriki Ómari. Vísir/Hulda Margrét

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður, textamaður og íslenskufræðingur leggur til 22 íslensk heiti á hinn svokallaða „Singles' day“ þar sem verslunareigendur um heim allan bjóða misgóð tilboð í þeirri von að neytendur taki upp veskið.

Dagurinn 11.11. hefur síðustu ár verið kallaður Singles’ day af sífellt fleiri verslunum og er dagurinn orðinn einn stærsti verslunardagur í heimi vegna fjölda tilboða sem fólk nýtir sér. Dagurinn var upphaflega sólarhringslöng verslunarhátíð á vefverslunum í Asíu sem hefur síðan teygt anga sína hingað til lands.

Nokkur hefð er komin á daginn hér á landi og fjölmargar verslanir sem bjóða misgóð tilboð á vörum sínum í tilefni dagsins. Mörgum gremst sú staðreynd að verslanir hérlendis auglýsi tilboðin í tilefni „Singles' day“ í stað þess að nota íslenskt heiti þar sem Dagur einhleypra hefur líklega oftast verið notað.

Bragi Valdimar Skúlason, þúsundþjalasmiður sem þekkir vel til í auglýsinga- og markaðsmálum auk þess að vera íslenskufræðingur, stingur niður penna í tilefni dagsins. Hann beinir orðum sínum að þeim stjórnendum verslana sem auglýsi tilboð í tilefni „Singles' day“.

„Ágætu andlausu, óinnblásnu kaupahéðnar og enskuupplepjandi skransalar. Hér fáið þið fáeinar tillögur að íslenskum heitum á þennan eymingjans ellefta nóvember, dag einhleypra, sem þið kjósið raunar ítrekað og umhugsunarlaust að kalla „singles day“ – og já – sem þið megið gjarnan að óbreyttu troða þéttingsfast upp í greiðslugáttirnar á ykkur,“ segir Bragi Valdimar á Facebook.

Tillögur hans má sjá að neðan en færsla hans er í töluverðri dreifingu. Margir taka undir með Braga auk þess sem fólk hefur skoðanir á því hvaða íslenska heiti ætti að festa í sessi.

  • Eindagi
  • Stakdægur
  • Einidagur
  • Dagur einmanaleikans
  • Einsemdadægur
  • Ógiftudagur
  • Kaupársdagur
  • Einkaupadagur
  • Álausudagur
  • Einverudagur
  • Staklingamessa
  • Dagur hinna einstæðu
  • Ókvænisdagur
  • Einsa–mall
  • Dagurinn eini
  • Einverjadagur
  • Dagur einstæðinga
  • Einhleypidagur
  • Lausliðugramessa
  • Einkaupadagur
  • Skrandagur
  • 1111

Tengdar fréttir

Segir söluhrun á degi einhleypra eiga sér eðlilegar skýringar

Brynja Dan, forsprakki dags einhleypra á Íslandi og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ, segir söluhrun á þessum afsláttadegi á síðasta ári eiga sér eðlilegar skýringar. Sé litið til sölu yfir dagana þrjá í kringum 11. nóvember sé ljóst að salan sé enn gríðarlega mikil.

„Höfum aldrei lent í öðru eins“

„Þetta gekk rosalega vel hjá okkur og við höfum bara aldrei lent í öðru eins,“ segir Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi gjafavöruverslunarinnar Hrím, um söluna á svokölluðum Singles Day í gær en dagurinn er einn þriggja stórra netútsöludaga sem allir lenda í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×