KSÍ tilkynnti í morgun að tveir leikmenn hefðu dregið sig úr hópnum vegna meiðsla. Um er að ræða Mikael Neville Anderson, leikmann AGF í Danmörku, og Hlyn Frey Karlsson, leikmann Brommopojkarna í Svíþjóð.
Þeir Andri Fannar Baldursson, Elfsborg, og Rúnar Þór Sigurgeirsson, Willem II, hafa verið kallaðir inn í landsliðshópinn í þeirra stað.
Hlynur Freyr kom inn í hópinn á laugardaginn var vegna meiðsla Daníels Leó Grétarssonar en hefur neyðst til að draga sig úr honum. Kolbeinn Birgir Finnsson þurfti einnig að draga sig úr hópnum á laugardag en Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Orlando City í MLS-deildinni var þá kallaður inn.
Ísland mætir Svartfjallalandi ytra á laugardaginn kemur og Wales á þriðjudag í næstu viku í lokaleikjum riðlakeppninnar í Þjóðadeildinni. Leikirnir verða báðir sýndir í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.