Nýju dúkkurnar eru byggðar á nornunum Glindu og Elphöbu, aðalpersónum kvikmyndarinnar Wicked. Umbúðirnar áttu að beina þeim sem keyptu dúkkurnar inn á síðu myndarinnar, WickedMovie.com.
Í hlekkinn vantaði hins vegar orðið „Movie“ og vísaði hann því á Wicked.com sem er klámsíða.
„Við sjáum innilega eftir þessum óheppilegu mistökum og ætlum að grípa samstundis til aðgerða til að bæta úr þessu,“ sagði Mattel í yfirlýsingu um málið á sunnudag. Fyrirtækið hefur hvatt viðskiptavini sína til að farga umbúðunum eða hylja hlekkinn.
Ein græn norn, ein góð norn
Kvikmyndin Wicked er fyrri hluti tvíleiks sem byggir á samnefndum söngleik sem gerist í landi Oz áður en Dórótea frá Kansas lendir þar.
Hún fjallar um vinskap tveggja norna, hinnar vinsælu Galindu og hinnar óvinsælu Elphöbu, áður en sú fyrrnefnda verður að Glindu góðu og hin síðarnefnda að vondu norninni í vestri. Með aðalhlutverk fara Ariana Grande, sem leikur hina góðu Glindu, og Cynthia Erivo sem leikur hina grænu Elphöbu.
Myndin kemur í íslensk kvikmyndahús þann 21. nóvember næstkomandi.