Íslenski boltinn

„Áran yfir Meistara­völlum er ólýsan­leg“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Axel Óskar hefur yfirgefið KR eftir eitt ár. Hér er hann í leik gegn Víkingum á Meistaravöllum.
Axel Óskar hefur yfirgefið KR eftir eitt ár. Hér er hann í leik gegn Víkingum á Meistaravöllum. Vísir/Anton Brink

Axel Óskar Andrésson mun ekki leika áfram með KR í Bestu deild karla í knattspyrnu. Hann hefur nú formlega kvatt liðið á samfélagsmiðlum, ber hann félaginu og KR-ingum í heild sinni söguna vel.

Fyrr í mánuðinum greindi Vísir frá því að Axel Óskar væri á leið frá KR eftir aðeins eitt tímabil í Vesturbænum. Hann gekk í raðir félagsins fyrir nýafstaðið tímabil í Bestu deild karla eftir langa dvöl í atvinnumennsku. Átti þessi sterkbyggði miðvörður að hjálpa KR að etja kappi á toppi deildarinnar en annað kom á daginn.

Á endanum hélt KR sæti sínu í deildinni örugglega og hefur félagið verið einkar duglegt að sækja leikmenn undanfarið. Er þar um að ræða uppalda KR-inga í bland við unga og efnilega leikmenn.

Það var því sameiginleg ákvörðun KR og miðvarðarins úr Mosfellsbæ að hann myndi rifta samningi sínum og leita á önnur mið.

„Takk KR-ingar fyrir minn stutta tíma hjá félaginu. Þrátt fyrir að hafa eingöngu verið eitt tímabil hjá KR og þótt að það hafi verið strembið, þá fann maður fyrir hversu ótrúlega sérstakur þessi klúbbur er. Áran yfir Meistaravöllum er ólýsanleg og ég elska fólkið sem kemur að klúbbnum. Ég óska KR alls hins besta í framtíðinni,“ sagir Axel Óskar í færslunni sem birtist á Facebook-síðu KR.

Alls lék Axel Óskar 23 leiki fyrir KR í deild og bikar. Skoraði hann í þeim fjögur mörk, þar af þrjú gegn Stjörnunni. KR endaði í 8. sæti Bestu deildar karla með 34 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×