Í grein þess efnis á vef Landsbankans segir að verðbólga hafi hjaðnað nokkuð kröftuglega á síðustu mánuðum og greiningardeildin spái því að hún mælist 4,5 prósent í nóvember.
Loks megi greina merki um hægari gang í neyslu heimilanna og íbúðaverð virðist vera á minna flugi en áður. Þá virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa minnkað auk þess sem hægt hafi á launahækkunum. Peningalegt aðhald hafi aukist statt og stöðugt og landsframleiðsla gæti orðið lítillega minni á þessu ári en því síðasta.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 20. nóvember. Nefndin hóf vaxtalækkunarferli í október með varfærinni lækkun um 0,25 prósentur.
Á vef Landsbankans segir að greiningardeildin telji að í ljósi hjaðnandi verðbólgu og ýmissa merkja um að eftirspurn sé á undanhaldi haldi nefndin áfram að lækka vexti og tilkynni um 0,5 prósentustiga lækkun í næstu viku. Stýrivextir færu þá niður í 8,50 prósent. Stýrivextir voru síðast lægri en 8,75 prósent í maí í fyrra, þegar þeir voru 7,5 prósent.
„Við teljum að nefndin taki til greina átök á opinberum vinnumarkaði og veki athygli á því að óvissa á vinnumarkaði og óhóflegar launahækkanir gætu hægt á vaxtalækkunarferlinu.“