Aðalvöllur Svartfellinga í höfuðborginni Podgorica er ekki leikhæfur og neyddi Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, þá svartfellsku til að færa leikinn. Hann fer því fram í Niksic sem er í um klukkustundar fjarlægð frá höfuðborginni þar sem íslenska liðið gistir.
Völlurinn tekur rúmlega fimm þúsund áhorfendur í sæti og glæný stúka er við völlinn sem var opnuð í ágúst á þessu ári. Ekki er uppselt á leikinn en gera má ráð fyrir fjögur þúsund manns á leiknum.
Íslenskir stuðningsmenn verða að líkindum teljandi á fingrum annarrar handar. Fjölmiðlamenn héðan verða að líkindum fleiri. Gummi Ben, Kjartan Henry Finnbogason og Aron Guðmundsson verða á vellinum auk Ívars Fannars Arnarssonar tökumanns fyrir hönd Stöð 2 Sport.
Alls verða 27 fjölmiðlamenn á leiknum en auk fjórmenninganna sem nefndir eru að ofan verða tveir fulltrúar Fótbolti.net á svæðinu og einn frá Morgunblaðinu.
Leikurinn hefst klukkan 17:00 og verður sýndur beint, í opinni dagskrá, á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst á sömu rás klukan 16:30.