Fótbolti

„Spila oftast best þegar ég er reiður“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ísak Bergmann fagnar marki sínu í kvöld.
Ísak Bergmann fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/EPA

Ísak Bergmann Jóhannesson átti góða innkomu í leik Íslands og Svartfjallalands í dag. Hann kom með kraft inn á miðjuna og innsiglaði sigur Íslands með marki undir lokin.

„Fyrst og fremst er geggjað að ná í sigurinn, nú er úrslitaleikur í Wales. Ég var ánægður með mína innkomu. Það var smá reiði innra með mér og ég spila oftast best þegar ég er smá reiður. Ég átti góða innkomu og er sáttur,“ sagði Ísak Bergmann þegar Aron Guðmundsson ræddi við hann eftir leikinn í Svartfjallalandi í dag.

Ísak Bergmann hefur ekki fengið tækifæri í byrjunarliðinu í síðustu leikjum íslenska liðsins. Hann var því staðráðinn í að nýta tækifærið þegar hann kom inn af bekknum í kvöld.

„Algjörlega. Maður þarf að nýta reiðina á réttan hátt. Ég kom inná með kraft, setti pressu og nýtti mína hlaupagetu. Maður þarf að nýta hana á réttan hátt.“

Ísak Bergmann var skiljanlega glaður þegar hann skoraði í kvöld.Vísir/EPA

Ísak innsiglaði sigur Íslands með glæsilegu marki á 89. mínútu leiksins.

„Þetta er ein besta tilfinningin að skoða landsliðsmark. Það er ótrúleg tilfinning og sérstaklega þegar það er sigurleikur. Þessi leikur var örugglega ekki mikið fyrir augað, mikið af návígjum og geggjað að ná að klára hann 2-0 og halda hreinu. Áfram gakk á móti Wales næst.“

Framundan er úrslitaleikur gegn Wales á þriðjudaginn um 2. sætið í riðlinum. Annað sætið tryggir umspil um að fara upp í A-riðil Þjóðadeildarinnar en liðið í 3. sæti spilar umspilsleik um að halda sæti sínu í B-riðli. 

„Mér fannst við betri en Wales í Laugardalnum, sérstaklega í seinni hálfleik. Við getum klárlega farið þangað og náð í þrjú stig. Það verður skemmtilegur leikur á flottum velli í Wales. Okkur hlakkar til,“ sagði Ísak Bergmann að endingu.

Viðtal Arons við Ísak Bergmann má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×