Ísland sigraði Svartfjallaland, 0-2, í Þjóðadeildinni í gær. Íslenska liðið mætir Wales í lokaleik sínum í riðli 4 í B-deild Þjóðadeildarinnar á þriðjudaginn.
Íslendingar lentu í Cardiff í dag. Á flugvellinum biðu spenntir aðdáendur eftir íslenska liðinu, sólgnir í eiginhandaráritanir. Og íslensku leikmennirnir og þjálfararnir urðu við þeim beiðnum.
Ungur drengur mætti meira að segja með heila bók þar sem hann var búinn að safna saman ljósmyndum af íslensku landsliðsmönnunum. Hann var svo heppinn að fá áritanir á myndirnar.
Ef Ísland vinnur Wales endar liðið í 2. sæti riðilsins og fer þar af leiðandi í umspil um að komast upp í A-deild Þjóðadeildarinnar. Tapist leikurinn í Cardiff á þriðjudaginn fara Íslendingar í umspil um að halda sér í B-deildinni.
Leikur Wales og Íslands hefst klukkan 19:45 á þriðjudaginn og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 19:15.