Í þætti föstudagskvöldsins ræddu sérfræðingarnir Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinskij ýmsa hluti og byrjuðu á að velja besta varnarmann deildarinnar. Báðir voru þeir þekktir fyrir frábæran varnarleik á sínum ferli í deildinni.
„Kane, hann er besti varnarmaðurinn,“ sagði Helgi Már án þess að hika og á þá við DeAndre Kane leikmann Grindavíkur.
„Ef ég þyrfti stopp á lokasekúndunni þá myndi ég treysta Kane best til að vera á boltamanninum,“ bætti Helgi Már við en Pavel valdi leikmann sem hefur verið fjarverandi í deildinni hingað til á tímabilinu.
Þeir félagar ræddu einnig hvernig þeim sjálfum myndi ganga í deildinni núna og komu ýmsar skemmtilegar pælingar fram. Þá töluðu þeir einnig um hvað væri mikilvægast í góðu liði og hvaða lið spilar skemmtilegasta körfuboltann.
Alla umræðuna úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.