Skoðun

Að eta út­sæði

Sigríiður Á. Andersen skrifar

Sem fyrr er hörð samkeppni milli vinstri flokkanna um hver þeirra geti lofað mestu skattahækkununum fyrir kosningar, leynt sem ljóst.

Flokkur fólksins gerir alvöru atlögu að titlinum með því að boða 90 milljarða árlega aukna skattheimtu af lífeyri landsmanna. Vill flokkurinn gera það með því að taka háan skatt af lífeyrisiðgjöldum launafólks. Launamenn munu þannig greiða skatt af tekjum sínum áratugum áður en þær koma til útborgunar. Sumir munu greiða skatt af tekjum sem þeir fá aldrei í vasann. Engin trygging er svo fyrir því að tekjurnar verði ekki skattlagðar aftur við útgreiðslu ef svona aðfarir hljóta stuðning.

Nái þessar gripdeildir Flokks fólksins fram að ganga mun söfnun lífeyrisréttinda ganga hægar fyrir sig. Bæði vegna lægri innborgunar og þar með ávöxtunar þar til lífeyrisaldri er náð og þörf er á þessum tekjum. Þetta veikir afkomu eldri borgara, beint og óbeint, til langrar framtíðar. Sömuleiðis veikir þessi skattahækkun tryggingaverndina sem lífeyrisréttindi veita m.a. vegna örorku.

Með því að eta útsæðið með þessum hætti rýrna einnig skatttekjur ríkisins til framtíðar. Þessi skattahækkun mun því, eins og margar slíkar aðrar, skila lægri skatttekjum þegar allt kemur til alls. Allir tapa.

Ekki verður betur séð en Flokkur fólksins slái ekki bara met í skattheimtu með þessari tillögu heldur einnig öll met í skerðingu lífeyris og örorkubóta og veiki um leið getu ríkisvaldsins til að hjálpa þeim sem minnst mega sín.

Ef tryggja á fólki fæði, klæði og húsnæði er ekki gott að eta útsæði.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík norður.




Skoðun

Sjá meira


×