Handbolti

Aron og Bjarki fögnuðu sigri gegn Viktori Gísla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson var flottur í Meistaradeildinni í kvöld sem eru góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið.
Aron Pálmarsson var flottur í Meistaradeildinni í kvöld sem eru góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið. Getty/Tom Weller

Íslenskir landsliðsmenn mættust í Íslendingaslag í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Ungverska félagið Veszprém vann þá fjögurra marka sigur á pólska liðinu Wisla Plock, 30-26.

Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson fögnuðu sigri á liðsfélaga sínum í landsliðinu Viktori Gísla Hallgrímssyni.

Sóknarleikur Veszprém gekk mjög vel en liðið klikkaði aðeins á tíu skotum í leiknum og var með 72 prósent skotnýtingu.

Aron átti mjög góðan leik en hann skoraði sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Bjarki var síðan með fjögur mörk úr fjórum skotum.

Viktor Gísli varði fimm af þeim 23 skotum sem hann reyndi við. Hinn markvörður liðsins, Mirko Alilovic, varði aðeins 1 af 12 skotum.

Veszprém er í toppsæti riðilsins með sjö sigra í átta leikjum en Wisla Plock er á botninum með einn sigur í átta leikjum.

Það gekk ekki vel hjá Hauki Þrastarson og félögum í Dinamo Búkarest sem töpuðu með níu mörkum á útivelli á móti Füchse Berlin, 38-29. Haukur klikkaði á báðum skotum sínum í leiknum.

Füchse var átta mörkum yfir í hálfleik, 22-14 og leikmenn Dinamo áttu aldrei möguleika í leik kvöldsins.

Füchse hafði tapað þremur leikjum í röð í Meistaradeildinni en komst aftur á sigurbraut og endaði um leið tveggja leikja sigurgöngu Dinamo. Dinamo er áfram tveimur stigum á undan þýska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×