Rússland og Norður-Kórea hafa aukið samstarf þeirra á sviði varnarmála og hafa Norðurkóreumenn sent Rússum umfangsmikið magn hergagna, skotfæra og stórskotaliðsvopna.
Ráðamenn í Suður-Kóreu staðfestu í vikunni að stórskotaliðsvopn hefðu verið flutt til Rússland og líklega hefðu hermenn fylgt þeim, sem hefðu það verkefni að kenna rússneskum hermönnum á þau. Áður höfðu myndir af þessum vopnakerfum á lestum verið birtar á samfélagsmiðlum í Rússlandi.
Sjá einnig: Næstu mánuðir skipta sköpum
Í nýlegu viðtalið í Suður-Kóreu sagði Shin Won Sik, áðurnefndur þjóðaröryggisráðherra, að talið væri að auk bættra loftvarna og gervihnattatækni sé talið að Norður-Kórea hafi einnig fengið efnahagsaðstoð frá Rússlandi.
Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni telja forsvarsmenn leyniþjónusta Suður-Kóreu að hermenn frá Norður-Kóreu hafi verið tengdir fallhlífarhermönnum og landgönguliðum í Rússlandi og að þeir hafi þegar tekið þátt í bardögum við úkraínska hermenn.

Herforingi sagður hafa særst í Kúrsk
Vestrænir embættismenn segja að herforingi frá Norður-Kóreu hafi særst í árás Úkraínumanna á stjórnstöð rússneska hersins í Kúrskhéraði í Rússlandi á dögunum. Notast var við breskar Storm Shadow stýriflaugar til árásarinnar.
Sérfræðingar hafa haft áhyggjur af því að Kim Jon Un, einræðisherra Norður-Kóreu, muni fá aðstoð frá Vladimír Pútín, kollega sínum í Rússlandi, við þróun kjarnorkuvopna og eldflauga til að bera slík vopn langar leiðir.
Sjá einnig: Ný flaug flaug lengra en áður
Í samtali við AP fréttaveituna segir einn sérfræðingur frá Suður-Kóreu að líklega hafi Rússar sent S-400 loftvarnarkerfi, flugskeyti og ratsjár til Norður-Kóreu. Það er talið eitt af háþróuðustu loftvarnarkerfum Rússlands en áðurnefndur sérfræðingur segir óljóst hve mikið slík kerfi geta styrkt loftvarnir Norður-Kóreu. Þau hafi til að mynda reynst illa gegn drónaárásum Úkraínumanna.
Talið er að í heildina þurfi loftvarnarkerfi Norður-Kóreu umtalsverða nútímavæðingu. Þau kerfi sem Kim á nú þegar eru orðin verulega gömul og sérfræðingar segja erfitt fyrir Norðurkóreumenn eina að gera umtalsverðar breytingar þar á.
Auka samvinnu í efnahagsmálum
Nýleg rannsókn bresku samtakanna Open Source Centre og BBC gefur til kynna að Norður-Kórea sé líklega að flytja inn töluvert meira en eina milljón tunna af olíu frá Rússlandi á þessu ári. Olíuflutningaskipum hefur verið siglt til Vostochny í Rússlandi oftar en fjörutíu sinnum frá því í mars, samkvæmt gervihnattarmyndum og öðrum gögnum sem þeir sem að rannsókninni komu fóru yfir.
Samkvæmt ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem Rússar samþykktu á sínum tíma, mega Norðurkóreumenn ekki flytja inn meira en hálfa milljón tunna af olíu á ári.
Ríkismiðlar Norður-Kóreu sögðu frá því á dögunum að erindrekar frá Rússlandi og Norður-Kóreu hefðu komist að samkomulagi um aukinni samvinnu í efnahagsmálum.
Alexandr Kozlov, ráðherra auðlinda og umhverfis í Rússlandi, ferðaðist síðasta sunnudag til Norður-Kóreu og fundaði þar með Kim og öðrum ráðamönnum. Í sömu flugvél voru rúmlega sjötíu dýr úr dýragörðum í Rússlandi sem Pútín gaf sem gjöf til dýragarðs Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu.
AP fréttaveitan hefur eftir ríkismiðlum Rússlands að Kozlov og norðurkóresku ráðamennirnir hafi meðal annars komist að samkomulagi um að fjölga flugferðum milli ríkjanna til að ýta undir ferðamennsku í Norður-Kóreu.