Innlent

Styrkja möstrin með möl eftir góða vinnu í nótt

Samúel Karl Ólason og Bjarki Sigurðsson skrifa
Frá vinnunni í gærkvöldi.
Frá vinnunni í gærkvöldi. Landsnet

Vinna við að verja tvær stæður á Svartsengislínu gegn hraunflæði úr Sundhnúkagígum, hófst aftur nú í morgun. Vel gekk að verja stæðurnar í nótt, með aðstoð Brunavarna Suðurnesja.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í samtali við fréttastofu að vinnunni, sem gekk vel í nótt, hafi verið hætt þá. Hún hafi þó byrjað aftur í morgun, þar sem möl hafi verið rutt upp að stæðunum, til að verja þær frekar.

„Það gekk bara vel í gærkvöldi og í nótt að verja þessi tvö möstur, sem er í hraunflæðislínunni, og það gekk bara vel. Við unnum það verk með Brunavörnum Suðurnesja. Þeir kældu hraunið í kringum möstrin.“

Sjá einnig: Rafmagnsmastur í hættu vegna hraunflæðis

Steinunn segir ástandið þó enn alvarlegt og fylgst sé með stöðunni. Bregðast þurfi við ef þörf sé á, sem raungerðist í morgun.

Rafmagn er ekki á línunni, því leiðarar í línunni slitnuðu skömmu eftir að eldgosið hófst. Forsvarsmenn Landsnets vilja þó verja stæðurnar því ef þær fara þá mun viðgerð verða mun erfiðari og taka lengri tíma.

Steinunn segir aðstæður við stæðurnar erfiðar.

„Við pössum vel upp á það að við séum ekki að setja fólkið okkar í aðstæður sem reynast hættulegar en heilt yfir gekk þetta mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×