Cecilía hefur átt frábæra leiktíð hingað til eftir komuna til Inter í sumar, og fengið á sig langfæst mörk allra í ítölsku deildinni.
Hún hefur alls haldið marki Inter hreinu í fimm af níu deildarleikjum sem hún hefur spilað, oftast allra markvarða í deildinni, og aðeins fengið á sig fimm mörk í hinum leikjunum.
Alls hefur Inter fengið á sig sex mörk í deildinni hingað til, þremur færri en næsta lið í þeim efnum sem er topplið Juventus sem á eftir leik við Como á morgun.
Inter komst með sigrinum í dag upp fyrir Fiorentina, lið Alexöndru Jóhannsdóttur, í 2. sæti deildarinnar með 24 stig. Juventus er með 26 stig og Fiorentina 22 stig. Napoli er í 8. sæti með sex stig.
Í harðri samkeppni í landsliðinu
Cecilía, sem er 21 árs, er í afar harðri samkeppni um markvarðarstöðuna í íslenska landsliðinu nú þegar sífellt styttist í Evrópumótið í Sviss næsta sumar.
Hún lék fyrri vináttulandsleikinn gegn Bandaríkjunum ytra á dögunum, og Telma Ívarsdóttir þann seinni. Fanney Inga Birkisdóttir, sem var aðalmarkvörður Íslands í undankeppni EM í sumar, missti af leikjunum við Bandaríkin vegna höfuðmeiðsla.
Þær þrjár eru í hópnum sem mætir Kanada 29. nóvember og Danmörku 2. desember í vináttulandsleikjum á Pinatar Arena á Spáni.