Innlent

„Þetta er ó­hjá­kvæmi­legur meðafli“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Jón Gunnarsson er sérstakur fulltrúi Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu.
Jón Gunnarsson er sérstakur fulltrúi Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson matvælaráðherra hefur gefið út 3,800 tonna kvóta á djúpkarfa, en ráðlagður heildarafli Hafrannsóknarstofnunnar fyrir fiskveiðiárið er 0 tonn. Jón Gunnarsson, aðstoðarmaður matvælaráðherra, segir að djúpkarfi sé óhjákvæmilega veiddur sem meðafli, og með kvótanum sé hægt að nýta hann í verðmætasköpun.

„Þetta var eftir hvatningu frá Félagi skipstjórnarmanna og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, þetta hangir saman við nýtingu á gullkarfastofni og grálúðustofni, sem tekst eiginlega ekkert að veiða nema það komi meðafli með af djúpkarfa,“ segir Jón Gunnarsson.

Menn hafi verið að veiða karfann „hvort sem er“ og verið að skrá hann í svokallaðan VS afla eða í tegundatilfærslur. Með útgáfu kvóta sé hreinlegra og auðveldara að auka verðmætasköpunina.

„Það er í rauninni bara verið að liðka fyrir því að menn geti verið að stunda veiðar á hagkvæmum hætti á afla sem kemur hvort sem er að landi,“ segir Jón Gunnarsson.

Hrygningarstofninn lítill og nýliðun slæm

Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar segir að hrygningarstofn djúpkarfans sé lítill, og nýliðun slæm. Hins vegar viti þau að djúpkarfi sé meðafli með öðrum veiðum.

„Þetta er bara staðan, þeir hafa væntanlega tekið samtal við einhverja eða verið í samtali við útveginn og einhverja hagaðila og ákveðið að hlusta á það frekar en að fara stíft eftir þeirri ráðgjöf sem kom frá okkur í júní,“ segir hann.

„Við förum ekkert endilega í þunglyndi þótt ráðgjöf okkar sé ekki fylgt í einu og öllu,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×