Fótbolti

Yamal Gull­drengur ársins og López Gull­stúlka ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Yamal hefur skorað sex mörk og lagt upp átta í 16 deildar- og Meistaradeildarleikjum á leiktíðinni.
Yamal hefur skorað sex mörk og lagt upp átta í 16 deildar- og Meistaradeildarleikjum á leiktíðinni. EPA-EFE/ANDREJ CUKIC

Lamine Yamal, leikmaður Barcelona og spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur hlotið nafnbótina Gulldrengur (e. Golden Boy) ársins eftir vasklega frammistöðu sína á liðnu ári. Þá hefur Vicky López, leikmaður Barcelona og spænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hlotið nafnbótina Gullstúlka (e. Golden Girl) ársins.

Hinn 17 ára gamli Yamal hefur verið frábær á leiktíðinni sem nú stendur yfir. Hann var ljósi punkturinn á annars döpru tímabili Börsunga á síðustu leiktíð og þá var hann í lykilhlutverki þegar Spánn stóð uppi sem Evrópumeistari síðasta sumar.

Nafnbótina hlýtur sá leikmaður undir 21 árs aldrei sem hefur staðið sig best ár hvert. Verandi aðeins 17 ára og fjögurra mánaða gamall er Yamal yngsti leikmaðurinn til að vinna til þessara eftirsóttu verðlauna.

Gavi, samherji Yamal hjá Barcelona, var sá yngsti til að vinna verðlaunin en hann var 18 ára og 77 daga gamall þegar hann vann árið 2022.

Segja má að Barcelona hafi unnið tvöfalt í ár þar sem hin 18 ára gamla Vicky López hlaut nafnbótina Gullstúlka ársins. Hún gekk í raðir Börsunga árið 2022 og á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Spán.

Yamal vann einnig Kopa-bikarinn í síðasta mánuði. Eru það verðlaun sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, veitur besta unga leikmanni álfunnar ár hvert.

Alls koma 50 íþróttablaðamenn að kjörinu en verðlaunin voru fyrst veitt árið 2003. Síðan þá hafa leikmenn á borð við Wayne Rooney, Lionel Messi, Kylian Mbappé, Erling Haaland og Jude Bellingham hlotið nafnbótina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×