Sport

Hjól­reiða­maður lést á ní­tján ára af­mælis­daginn sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tuur Hancke var belgískur hjólreiðamaður.
Tuur Hancke var belgískur hjólreiðamaður.

Belgíski hjólreiðamaðurinn Tuur Hancke lést á nítján ára afmælisdaginn sinn, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að læknar sögðu að hann væri með flensu.

Hancke yfirgaf tíma í skólanum sínum fyrr í vikunni og sneri aftur á herbergi sitt eftir að hafa verið slappur. Hann taldi sig hafa veikst eftir að hafa hjólað úti í rigningu á sunnudaginn. 

Hancke fór í kjölfarið til læknis sem skrifaði upp á lyf fyrir hann. En ástand hans lagaðist ekki, hann var mjög veikburða og gat ekki staðið í lappirnar.

Foreldrar Hanckes voru hjá honum og töldu að hægt væri að bjarga honum. Það tókst hins vegar ekki og hann lést á nítján ára afmælisdaginn sinn. 

Hjólreiðalið Hanckes, Gaverzicht-BE Okay-Van Mossel, greindi frá andláti hans. Hancke gekk til liðs við það 2022. Hann keppti fyrir unglingalið þess í tvö ár og þreytti svo frumraun sína með U-23 ára liðinu á þessu ári. Fyrir nokkrum vikum tilkynnti Hancke hins vegar að hann ætlaði að hætta að hjóla og hefja nýjan kafla í lífinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×