Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Þar segir að lögregla hafi haft afskipti af tveimur mönnum í umdæmi stöðvarinnar, sem nær til Kópavogs og Breiðholts. Ekki kemur fram hvar.
„Á vettvangi kom í ljós að báðir mennirnir voru vopnaðir og voru handteknir. Þeir voru einnig grunaðir um vörslu fíkniefna,“ segir í dagbók lögreglu. Því liggur ekki fyrir hvenær mennirnir voru handteknir, né hvers lags vopn þeir voru með í fórum sínum.
Deilumál sem leystist
Í dagbók lögreglu segir einnig að tilkynnt hafi verið um „aðila sem er að reyna að komast inn í hús“ í Hafnarfirði, Garðabæ eða á Álftanesi. Lögregla hafi farið á staðinn og rætt við viðkomandi.
„Þarna var um deilumál að ræða og leystist það á vettvangi.“
Þá var lögregla kölluð til vegna slagsmála í verslunarmiðstöð í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ eða á Seltjarnarnesi, sem eru í umdæmi lögreglustöðvar númer eitt, og hefur hana til rannsóknar.