Gideon Saar, utanríkisráðherra Sýrlands, sagði í morgun að loftárásir Ísraela hefðu beinst að efnavopnageymslum stjórnarhers Bashar al-Assads, fyrrverandi forseta Sýrlands, og öðrum vopnum eins og langdrægum eldflaugum. Saar sagði markmiðið vera að koma í veg fyrir að þessi vopn enduðu í höndum öfgamanna.
AFP fréttaveitan hefur eftir Saar að árásunum hafi verið ætlað að tryggja öryggi Ísraela.
Fréttaveitan segir einnig að árásirnar hafi meðal annars beinst að herflugvelli í jaðri Damaskus og þar hafi herþyrlum og flugvélum verið grandað, auk þess sem vopnageymsla þar nærri hafi orðið fyrir árás.
Hafa lengi gert árásir í Sýrlandi
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hefur heitið því að óvinveittum öflum verði ekki leyft að koma upp viðveru við landamæri ríkisins.
Ísraelar hafa á undanförnum árum gert ítrekaðar og umfangsmiklar árásir í Sýrlandi. Þær hafa að mest beinst að byltingarverði Írans og vopnasendingum til Hezbollah í Líbanon og í Sýrlandi. Sjaldgæft er að Ísraelar gangist við þessum árásum.
Sjá einnig: Ísraelar gerðu áhlaup á leynilega vopnaverksmiðju í Sýrlandi
Assad samþykkti árið 2013 að láta efnavopn sína af hendi árið 2013, eftir að stjórnarher hans gerði efnavopnaárás á Ghouta, úthverfi Damaskus, þar sem hundruð létu lífið.
Assad er þó talinn hafa haldið efnavopnum eftir og hefur stjórnarherinn ítrekað verið sakaður af sérfræðingum Efnavopnastofnunarinnar og mannréttindasamtökum um beitingu efnavopna gegn óbreyttum borgurum síðan þá. Meðal annars í bænum Douma.