Eberflus var þjálfari Chicago Bears í NFL deildinni þar til að liðið hans tapaði fyrir Detriot Lions á Þakkargjörðarhátíðardeginum.
Eberflus var rekinn daginn eftir og þótti sumum vera löngu kominn tími til þess. Þetta var samt í fyrsta sinn í yfir hundrað ára sögu félagsins þar sem Bears ráku þjálfara sinn á miðju tímabili.
Það fylgir þó sögunni að Eberflus var með skotheldan samning. Þegar hann samdi í janúar 2022 þá skrifaði hann undir fimm ára samning eða út 2026 tímabilið.
Eberflus fær því meira en nítján þúsund dollara á dag næstu tvö árin en það eru um 2,6 milljónir í íslenskum krónum á hverjum degi inn á reikninginn.
Eberflus samdi um 4,5 milljónir dollara í árslaun en það eru 624 milljónir í íslenskum krónum.
Menn hafa leikið sér með þessa tölur enda fær Eberflus hreinlega borgað fyrir að mæta ekki í vinnuna.
Hann er því að fá í íslenskum krónum 1800 krónur á mínútu, 110 þúsund krónur á klukkutímann, 2,6 milljónir á dag, 18,6 milljónir á viku og 80,8 milljónir á mánuði. Ekki slæm laun fyrir að mæta ekki til vinnu.