Enski boltinn

Amorim á­nægður með að sjá leik­menn sína rífast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim gengur hér á móti þeim Rasmus Höjlund og Amad Diallo sem voru að rífast eftir leikinn.
Ruben Amorim gengur hér á móti þeim Rasmus Höjlund og Amad Diallo sem voru að rífast eftir leikinn. Getty/Gabriel Kuchta

Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, sá ekkert neikvætt við það að leikmenn hans rifust eftir 2-1 útisigur United á Viktoria Plzen í Tékklandi í Evrópudeildinni í kvöld.

Daninn Rasmus Höjlund skoraði bæði mörk United manna í leiknum þar af sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Strax eftir leik sást hann aftur á móti rífast við hinn unga Amad Diallo. Á endanum þurfti Lisandro Martínez að stíga á milli þeirra.

„Fyrir mér þá er þetta fullkomið,“ sagði Ruben Amorim eftir leikinn.

„Við verðum að hafa tilfinningar. Á þessum tímapunkti verðum við að hafa tilfinningar. Ef við þurfum þá að rífast við hvorn annan þá er það bara eins og hjá fjölskyldum. Þetta boðar eitthvað mjög gott að mínu mati. Við verðum að vera með tilfinningarnar í þessu og sýna að þetta sé okkur mikilvægt,“ sagði Amorim.

Amorim segir að þarna hafi þessir tveir leikmenn sýnt honum að þeim væri ekki sama.

„Það er á hreinu. Þegar þér er alveg sama þá gerir þú ekkert. Þegar þetta skiptir þig máli þá rífstu við bróður þinn, við föður þinn og við móður þina. Þetta boðar gott,“ sagði Amorim.

„Þetta er fullkomlega eðlilegt og þetta er jákvætt og heilbrigt. Ég leyfi leikmönnunum og fyrirliðanum að róa menn. Ef ég tel að þetta sé of mikið þá fer ég inn í klefa. Það er samt þeirra staður þar sem þeir ræða málin, rífast aðeins og útkljá málin,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×