Mist Funadóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við Þrótt en hún hefur leikið með Fylki undanfarin tvö ár.
Hin 21 árs gamla Mist er öflugur vinstri bakvörður sem hefur átt sæti í íslenska 23 ára landsliðinu.
Hún ólst upp í Þrótti og spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki með Þrótti þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul.
Mist var búin að spila 14 leiki í efstu deild með Þrótti þegar hún skipti yfir í Fylki.
Síðasta sumar var Mist með eitt mark í tuttugu leikjum með Fylki í Bestu deildinni.
„Við fögnum því af heilum hug að Mist hefur ákveðið að snúa aftur heim í Laugardalinn. Við sóttumst stíft eftir að fá hana og erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Hún á eftir að blómstra í Þróttararbúningnum, á því er enginn vafi, enda sterkur leikmaður og á eftir að styrkja hóp okkar Þróttara á komandi árum svo um munar,“ sagði Kristján Kristjánsson, formaður Knattspyrnudeildar Þróttar, á miðlum félagsins.