Menning

Féll í mynd­list en fann sig sem mynd­listar­maður

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Bergur Nordal er búsettur í Vínarborg en var að opna sýna fyrstu einkasýningu hérlendis. Hann á ekki langt að sækja myndlistarhæfileikana.
Bergur Nordal er búsettur í Vínarborg en var að opna sýna fyrstu einkasýningu hérlendis. Hann á ekki langt að sækja myndlistarhæfileikana. Brynley Odu Davies

„Ég verð að segja að mamma og pabbi höfðu rétt fyrir sér, ég fíla mig feitt í myndlist og sé ekkert eftir því vali,“ segir myndlistarmaðurinn Bergur Nordal sem var að opna sína fyrstu einkasýningu hérlendis síðastliðna helgi á Kontórnum, Hverfisgötu. Bergur hefur verið búsettur í Vínarborg undanfarin ár þar sem hann stundar nám við Listaakademíuna og hefur meðal annars sýnt í frægu listgalleríi í Berlín.

Morguntímarnir unnu ekki með honum

Það má segja að skrifað hafi verið í stjörnurnar hver framtíð Bergs yrði.

„Þegar ég var barn var ég alltaf sendur í Myndlistarskólann í Reykjavík og ég sótti þar aragrúa af námskeiðum alveg frá bernsku. Ég hef aldrei fílað að gera línuteikningar eða í raun blýantsteikningu og eini áfanginn sem ég hef fallið á ævinni er myndlist í MH. 

Ég held að það hafi verið blanda af því að sá áfangi var mikið um fjarpunkta og svo var hann líka alltaf í fyrsta tíma á morgnana.

Eftir MH þá var lagt fyrir mig að annað hvort tæki ég eitt ár í Myndlistarskólanum á Sjónlistarbraut eða ég ætti að flytja að heiman. Svo ég gerði það, sótti reyndar um í fornleifafræði en ákvað frekar að gera eins og mér var sagt.

Eftir það komst ég inn í myndlist í LHÍ svo ég gerði það bara líka og ég verð að segja að mamma og pabbi höfðu rétt fyrir sér, ég fíla mig feitt í myndlist og sé ekkert eftir því vali,“ segir Bergur en foreldrar hans eru listamennirnir Ólöf Nordal og Gunnar Karlsson.

Bergur fetaði í fótspor foreldra sinna veg listarinnar.Árni Einar Marselíusarson

Myndlist sem er aðgengileg öllum

Bergur hefur farið nokkuð óvanalega leið í sínu fígúratífa málverki og vakið athygli safnara þó almenningur á Íslandi hafi ekki kynnst honum mikið, enda ungur að árum og aldrei haldið sýningu hér áður.

„Pabbi er málari og mamma er er skúlptúristi svo ég fékk alltaf þessa hvatningu í það að skapa. Ég var líka tekinn með á ótal sýningar þegar ég var barn og það hefur haft þau áhrif á mig að ég reyni að gera myndlist sem er aðgengileg fyrir alla. 

Ég mála fígúratíf málverk sem er í rauninni í nokkurri andstöðu við póstmódernismann sem var ráðandi í þegar ég var barn.“

Verk Bergs eru fígúratíf.Árni Einar Marselíusarson

Bergur kláraði námið í Listaháskóla Íslands sem hann segir að hafi verið mikið byggt á konsept list.

„Mig langaði svo að hella mér yfir í málverk af alvöru. Ég fann þennan skóla úti, Listaakademíuna í Vín, sem byggist á öðru módeli en master/bachelor prógrömm. 

Þar er miklu meiri áhersla á að ná verklegri færni á myndlistinni heldur en að einblýna endilega á konseptið. 

Mér finnst þessi blanda sem ég fékk, bæði hér í LHÍ og úti, vera ómetanleg.“
Bergur málar alla daga, alltaf.Árni Einar Marselíusarson

Málar alla daga, alltaf

Aðspurður hvort hann finni mun á listsenunni hérlendis miðað við úti segir Bergur:

„Já, senan hérna heima er náttúrulega minni en mér finnst hún vera mjög frjáls líka. Það eru fáar sýningar sem reyna á nokkurn hátt að spila leik kapítalismans hér heima sem gerir það að verkum að fólk fær tækifæri til að tjá sig í gegnum myndlist á mismunandi vegu.“

Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta einkasýning hans hérlendis er þetta hans fimmta yfir höfuð.

„Þetta er sömuleiðis önnur sýningin sem ég vinn fyrir yfirlýst gallerí en ekki svokallað „project space“. Undirbúningurinn hófst þannig lagað löngu áður en Burkni og Skúli hjá Kontór höfðu samband við mig í vor.

Ég fer í stúdíó og mála alla daga, alltaf, og ég var nýbúinn að tæma lagerinn minn í fyrra fyrir sýningu svo ég vissi að ég þyrfti að eiga einhver verk inni. Síðan heyrði ég frá þeim núna í vor, fékk að sjá rýmið, og gat byrjað að setja saman heildstæða sýningu.“

Undirliggjandi ólga og óáþreifanleg hætta

Hann segir að innblásturinn geti komið til hans frá mörgum áttum.

„Hann getur sprottið úr náttúrunni, gömlum minningum, samskiptum eða jafnvel úr hversdagslegum hlutum sem vekja hjá mér tilfinningar. Ég fer samt aldrei inn í verk með einhverja fastmótaða stefnu heldur leyfi ég verkinu alltaf að ráða förinni. 

Í þessari sýningu er undirliggjandi ólga og vá í myndunum þó hún leynist kannski bak við fjallið eða handan við myndflötinn. Hættan er til staðar en hún er ekki enn komin hingað.“

Bergur segir sömuleiðis skemmtilegt að geta hleypt sýningargestum inn í hugarheim hans á sýningu sem þessari.

„Þetta er augnablik þar sem öll vinna mín verður opinber og hægt að upplifa hana á þá vegu sem hverjum og einum sýnist. Það er ákveðin frelsistilfinning en líka mikil berskjöldun, því maður setur brot af sjálfum sér í hverju verki.

Að sýna verk sem maður hefur unnið af ástríðu er eins og að opna dyr inn í eigin hugsanir og tilfinningar. Það getur verið ógnvekjandi að vita að hver og einn gestur les verkin á sinn hátt. En einmitt til þess vill maður vera að þessu, til að sjá þetta samspil milli málverkanna og áhorfandans.“

Þakklátur fyrir gesti í desember veðrinu

Opnunin gekk vonum framar og einkenndist að sögn Bergs af stuði.

„Það var fullt af fólki sem kom og mér fannst allir bara verða nokkuð hressir með sýninguna. Ég er ógeðslega þakklátur þeim fyrir að mæta þrátt fyrir desember veður.“

Spurður að lokum hvað sé á döfinni segir hann:

„Útskrift í vor og svo bara restin af ævinni minni eftir það.“

Burkni J. Óskarsson, Skúli Gunnlaugsson og Bergur Nordal á opnuninni.Aðsend





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.