Handbolti

Rosa­legur hæðar­munur á liðs­félögum ís­lensku strákanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson stendur hér fyrir framan Dainis Kristopans en hliðar má sjá muninn á liðsfélögunum Erik Balenciaga og Kristopans.
Elvar Örn Jónsson stendur hér fyrir framan Dainis Kristopans en hliðar má sjá muninn á liðsfélögunum Erik Balenciaga og Kristopans. Getty/Marius Becker/Lars Baron

Íslendingaliðið MT Melsungen hefur átt frábært tímabil í þýska handboltanum og er á toppi deildarinnar eftir fimmtán leiki.

Liðið hefur unnið þrettán af fimmtán leikjum og hefur tveimur stigum meira en Hannover-Burgdorf sem er í öðru sætinu.

Með Melsungen spila landsliðsmennirnir Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson. Báðir spiluðu þeir sig inn í HM-hóp íslenska landsliðið með frammistöðu sinni í vetur en það eru samt tveir liðsfélagar þeirra sem hafa vakið meiri athygli.

Það er ekki bara fyrir góða spilamennsku heldur einnig fyrir hæð þeirra og þá sérstaklega hæðarmun.

Spánverjinn Erik Balenciaga er aðeins 169 sentimetrar á hæð sem er ekki mikið fyrir útispilara. Lettinn Dainis Kristopans rífur vel upp meðalhæð liðsins á móti því hann er 214 sentimetrar á hæð. Það munar 45 sentímetrum á þeim.

Það besta er að Kristopans er hægri skytta og spilar við hlið Balenciaga í útilínunni.

Það sem meira er að Balenciaga er mjög öflugur í að spila uppi Kristopans og þeir ná mjög vel saman inn á vellinum.

Kristopans er markhæsti leikmaður liðsins til þessa í vetur með 60 mörk en Balenciaga er fimmti markahæstur með 41 mark. Balenciaga er aftur á móti með flestar stoðsendingar í liðinu (48) en Kristopans er bara einni stoðsendingu á eftir honum (47).

Þeir komu báðir til liðsins árið 2023 og Kristopans talar um það að Erik hafi verið mikið aðdráttarafl fyrir hann því hann vildi spila með honum.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við þá félaga og myndir af hversu mikill munur er á hæð þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×