Erlent

Heiðrar lækna sína í miðri krabba­meins­með­ferð

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Greint var frá krabbameinsgreiningu Karls Bretakonungs í febrúar á þessu ári og er henni ekki enn lokið, tíu mánuðum síðar.
Greint var frá krabbameinsgreiningu Karls Bretakonungs í febrúar á þessu ári og er henni ekki enn lokið, tíu mánuðum síðar. Jason Cairnduff/Getty

Karl III Bretakonungur hefur veitt læknunum Douglas Glass og Richard Leach heiðursorðu fyrir störf þeirra fyrir konungsfjölskylduna. Karl hefur verið í krabbameinsmeðferð frá því í febrúar og er ekki vitað hvenær henni lýkur.

Þegar greint var frá greiningunni í febrúar sagði í tilkynningu frá Buckingham-höll að nöfn læknanna sem sjá um meðferð konungs yrðu ekki gerð opinber. Hins vegar hefur það verið gert óbeint, hvort sem það var viljandi eða óviljandi, þegar heiðurslisti konungs birtist, svokallaður „New Year Honours List“.

Þar heiðraði hann tvo út læknateymi sínu með orðu sem koungsfjölskyldan veitir fólki sem hefur þjónað konungsfjölskyldunni, svokallaðri „Royal Victorian Order“ eða RVO.

Þeir tveir sem hlutu orðuna voru annars vegar heimilislæknir konungs, Dr. Douglas Glass, sem gengur einnig undir titlinum apótekari konungs og svo læknir hans, prófessorinn Richard Leach. Glass var einnig læknir Elísabetar II Bretadrottningar og var hjá henni þegar hún dó. Leach er yfirlæknir á einkasjúkarahúsinu King Edward VII's Hospital í miðborg Lundúna þar sem meðlimir koungsfjölskyldunnar hafa fengið læknisþjónustu í áratugi.

Það er ekki óalgengt að læknar konungsfjölskyldunnar fái persónulega viðurkenningu og heiðraði Elísabet yfirlækni sinn, Sir Huw Thomas, árið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×