Innlent

Sunda­braut for­gangs­mál, fjár­mögnuð með veggjöldum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Eyjólfur Ármannsson nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ætlar strax að láta hendur standa fram úr ermum.
Eyjólfur Ármannsson nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ætlar strax að láta hendur standa fram úr ermum. Vísir

Ný ríkisstjórn hittist á vinnufundi í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum á morgun og er búist við að fundurinn standi allan daginn að sögn samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra. Hann segir að forgangsverkefni sitt sé að hefja framkvæmdir á Sundabraut. Framkvæmdin verði fjármögnuð með innheimtu veggjalda

Vinnufundur ríkisstjórnarinnar á Þingvöllum hefst í fyrramálið og verður fram eftir degi að sögn Eyjólfs Ármannssonar nýs samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Þetta verður svona vinnufundur hjá okkur á Þingvöllum. Ég hlakka til,“ segir Eyjólfur.

Stórframkvæmdir fram undan

Eyjólfur sem hitti allt starfsfólk ráðuneytisins í morgun segir mörg stór verkefni fram undan eins og framkvæmdir um allt land í samgöngum og jarðgangagerð.

„Sundabraut er forgangsmál. Það kemur úr umhverfismati um Sundabraut og það þarf að ákveða hvort að það verði brú eða jarðgöng núna á vormánuðum. Í stjórnarsáttmálanum.er gert ráð fyrir að fjárfest sé í innviðum til að auka verðmætasköpun. Þá á að hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt í samgöngum og rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur verið í jarðgangagerð, helst á næsta ári.  Svo er það samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins,“ segir hann.

Sundabraut fjármögnuð með veggjöldum

Eyjólfur segir eftir að taka ákvörðun um fjármögnun jarðganga en Sundabraut verði ekki á kostnað ríkissjóðs. 

„Sundabraut er  verkefni sem er fjármagnað með innheimtu veggjalda. Það er ekki inn í ríkisfjármálunum. Svo er það jarðgangagerðin, ég myndi vilja hafa fastan lið í fjárlögum fyrir jarðgangagerð. Þannig að það  verði alltaf nægt fjármagn svo ein jarðgöng taki við að öðrum.

Aðspurður um hvar sé brýnasta þörfin fyrir jarðgöng svarar Eyjólfur. 

„Það er á Vestfjörðum, Austfjörðum og Tröllaskaga en þetta á allt eftir að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×