Innlent

Að­stoðar Ingu eftir við­komu í Sjálf­stæðis­flokknum, Við­reisn og JP Morgan

Eiður Þór Árnason skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nýr félags- og húsnæðismálaráðherra á Bessastöðum í desember síðastliðnum.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nýr félags- og húsnæðismálaráðherra á Bessastöðum í desember síðastliðnum. vísir/vilhelm

Sigurjón Arnórsson og Hreiðar Ingi Eðvarðsson verða aðstoðarmenn Ingu Sæland sem tók nýverið við sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Inga leitaði ekki langt eftir aðstoð en báðir hafa starfað náið með henni í Flokki fólksins um nokkurt skeið.

Sigurjón hefur verið aðstoðarmaður Ingu á Alþingi frá árinu 2017 og Hreiðar gengt hlutverki framkvæmdastjóra þingflokks Flokk fólksins. Hreiðar er lögfræðingur og var í 26. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu þingkosningum.

Komið víða við

Sigurjón var kosningastjóri flokksins en hann er með meistarapróf í alþjóðlegum viðskiptafræðum og BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hann hefur einnig verið viðriðinn starf annarra flokka en árið 2013 gaf hann kost á sér í 4. til 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 en lenti í 19. sæti.

Sigurjón Arnórsson hefur aðstoðað Ingu Sæland frá árinu 2017.Flokkur fólksins

Þá hefur hann setið í stjórn Félags sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi og verið kosningastjóri hjá sama flokki. Sigurjón kom einnig að stofnun Viðreisnar og var fyrsti launaði starfsmaður flokksins.

Fram kemur í viðtali við Sigurjón í Breiðholtsblaðinu að hann hafi um tíma starfað hjá JP Morgan bankanum í Lúxemborg. Heimssýn hans hafi breyst þegar hann kynntist fyrst fátækt á heimaslóðum Mexíkó-ættaðrar eiginkonu sinnar og þau bjuggu um tíma í bíl í Suður-Kaliforníu. 

Sigurjón segir að Inga og flokkur hennar hafi vakið athygli hans eftir að hjónin komu aftur til Íslands og hann sett sig í samband við formanninn. Í kjölfarið hafi hann tekið tekið til starfa.


Tengdar fréttir

María Rut aðstoðar Þorgerði Katrínu

Hún lætur af störfum sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu þar sem hún hefur leitt samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins síðastliðin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×