Erlent

Trudeau segir af sér

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Justin Trudeau hélt blaðamannafund í dag.
Justin Trudeau hélt blaðamannafund í dag. AP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur sagt af sér. Hann segir af sér bæði sem formaður Frjálslynda flokksins og forsætisráðherra. Hann treysti sér ekki til að leiða flokkinn vegna átaka innan hans.

Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi fyrir utan heimilið sitt, Rideau Cottage. Hann lýkur þó ekki störfum fyrr en nýr formaður hefur verið valinn.

Þinghaldi í Kanada hefur verið frestað til 24. mars.

„Ég segi ykkur nú fréttirnar sem ég sagði börnunum mínum við kvöldmatarborðið í gær“ sagði Trudeau bæði á ensku og frönsku í útsendingu fréttastofu BBC

Kosningar eru framundan í Kanada en Frjálslyndi flokkurinn, flokkur Trudeau, hefur komið illa út úr skoðanakönnunum.

Trudeau hefur verið formaður Frjálslynda flokksins frá 2013 og tók við embætti forsætisráðherra árið 2015.

„Ég get ekki verið formaður í næstu kosningum vegna átaka innan flokksins,“ segir Trudeau aðspurður af hverju hann hafi ákveðið að segja af sér núna. 

Mikill ágreiningur var á milli Trudeau og Chrystia Freeland, fyrrum fjármálaráðherra í ríkisstjórn Trudeau. Hún sagði af sér nú í desember og segir ástæðuna vera ágreininginn. 

Í uppsagnarbréfi sínu sagði Freeland ágreininginn vera vegna hótana Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, um að leggja á 25 prósent innflutningsgjald á kanadískan innflutning.

„Ég virkilega vonaði að hún hefði haldið áfram sem varaforsetisráðherrann minn og myndi sjá um þær svívirðingar sem þessi ríkisstjórn stendur frammi fyrir men hún valdi annað. Í tenglsum við hvað gerðist í raun er það ekki minn vani að deila einkasamtölum,“ sagði Trudeau um Freeland á blaðamannafundinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×