Eldarnir eru allir skilgreindir sem stjórnlausir, utan þann sem brennur í hverfinu Woodley, en þar hefur slökkviliði tekist að hemja eldhafið að einhverju marki. Nýjasti eldurinn kom upp í Hollywood hæðum í gærkvöldi og þar hefur fjölda fólks verið gert að yfirgefa heimili sín.
Fimm eru nú látnir í hamförunum svo vitað sé og um hundrað og fimmtíu þúsund manns hefur verið sagt að flýja frá því fyrsti eldurinn kviknaði í vikunni.
Fyrst kviknaði í Pacific Palisades hverfinu og brennur sá eldur enn stjórnlaust og er hann nú sá eldur í sögu borgarinnar sem mestum skemmdum hefur ollið. Rúmlega eitt þúsund byggingar eru ónýtar aðeins í því hverfi og á meðal þeirra sem hafa misst heimil sín eru stjörnur á borð við Billy Crystal og Paris Hilton sem bæði bjuggu í hverfinu.