Talið er að um 5.000 byggingar hafi orðið Palisades-eldinum að bráð og aðrar 5.000 hafi eyðilagst í Eaton-eldinum. Nýr eldur kviknaði í gær, í West Hills, norður af Calabasas, og var fljótur að dreifa úr sér.
Slökkviliðsmenn hafa ekki náð að hemja stóru eldana en hefur miðað eitthvað áfram með minni elda, eftir að vind lægði og mögulegt var að hefja slökkvistörf úr lofti.
Á vef CNN má finna kort og gervihnattamyndir af eldunum.
Heilu hverfin eru brunnin til kaldra kola og ljóst að um er að ræða einar kostnaðarsömustu náttúruhamfarir í sögu Bandaríkjanna.
Rýmingum var aflétt á ákveðnum svæðum í gær og þar mátti sjá íbúa snúa aftur til að fara í gegnum rústirnar. Alls er talið að um 180 þúsund manns hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Þess ber að geta að þegar yfirvöld í Kaliforníu tala um byggingar (e. structures) þá nær það einnig yfir minni eignir, til að mynda kofa og hjólhýsi.
