Handbolti

Haukar með tveggja marka for­skot fyrir seinni leikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir var markahæst hjá Haukum í dag.
Rut Jónsdóttir var markahæst hjá Haukum í dag. vísir/Viktor Freyr

Haukar fara með ágætt veganesti í seinni leik liðsins gegn úkraínska liðinu Galychanka Lviv. Haukar unnu tveggja marka sigur í fyrri leik liðanna í dag.

Liðin munu leika báða leiki sína í 16-liða úrslitum EHF-bikarsins hér á landi en leikurinn í dag taldist sem heimaleikur úkraínska liðsins.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi en Haukar skoruðu þrjú síðustu mörk hálfleiksins og voru með 12-9 forystu þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Haukar náðu fjögurra marka forystu í seinni hálfleik eftir að lið Galychanka Lyiv hafði náð að jafna metin í 13-13. Úkraínska liðið náði hins vegar að jafna metin á ný og var staðan 22-22 þegar skammt var eftir. Þá náðu Haukakonur hins vegar góðum kafla og tryggðu sér að lokum 26-24 sigur.

Rut Jónsdóttir var markahæst Haukakvenna með sjö mörk en Sonja Sigsteinsdóttir kom næst með sex mörk. Sara Sif Helgadóttir, Elísa Helga Sigurðardóttir og Margrét Einarsdóttir vörðu samtals tíu skot.

Seinni leikur liðanna fer fram á Ásvöllum klukkan 17:00.

 Tölfræðiupplýsingar úr leiknum eru fengnar af vef Morgunblaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×