Handbolti

Grjóthörð Díana spilaði ristarbrotin

Sindri Sverrisson skrifar
Díana Dögg Magnúsdóttir verður frá keppni næstu vikurnar en missir vonandi ekki af neinum landsleikjum.
Díana Dögg Magnúsdóttir verður frá keppni næstu vikurnar en missir vonandi ekki af neinum landsleikjum. Vísir/EPA

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta, verður frá keppni næstu vikurnar eftir að hafa ristarbrotnað í leik með HSG Blomberg-Lippe í Evrópudeildinni. Hún spilaði seinni hálfleikinn ristarbrotin.

Díana og stöllur hennar unnu afar torsóttan en góðan sigur gegn Mosonmagyaróvár í Ungverjalandi á sunnudaginn, 34-32.

Díana meiddist undir lok fyrri hálfleiks og fékk aðhlynningu sjúkraþjálfara, en tókst einhvern veginn að harka af sér og spila seinni hálfleikinn. Hún skoraði þá til að mynda tvö mörk í röð til að koma HSG yfir um miðjan seinni hálfleikinn.

Læknisskoðun eftir leik leiddi í ljós að ristarbein (e. metatarsal) hefði brotnað og því missir Díana af næstu leikjum HSG.

„Þetta eru sorgartíðindi fyrir hana, okkur sem lið og félag, því hún hefur þróast í lykilleikmann á síðustu mánuðum og vikum,“ segir Steffen Birkner, þjálfari HSG, við heimasíðu félagsins.

„Ég er mjög sorgmædd yfir því að geta ekki hjálpað liðinu á vellinum í næstu leikjum. En ég mun gera allt til þess að verða klár í slaginn eins fljótt og hægt er,“ segir Díana.

Í samtali við handbolti.is segir Díana að mögulega þurfi hún að gangast undir aðgerð. Ákvörðun um það verði tekin í næstu viku en brotið „liggi ekkert allt of vel“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×