Viðskipti innlent

Taka já­kvætt í kol­efnis­förgunar­stöð í Ölfusi

Kjartan Kjartansson skrifar
Carbfix dælir koltvísýringi niður í jörðin í borholum sem þessum við Hellisheiðarvirkjun. Kolefnisbindingartæknin var þróuð þar og hefur verið notuð í meira en áratug.
Carbfix dælir koltvísýringi niður í jörðin í borholum sem þessum við Hellisheiðarvirkjun. Kolefnisbindingartæknin var þróuð þar og hefur verið notuð í meira en áratug. Vísir/Arnar

Bæjarráð Ölfuss tekur jákvætt í áhuga Carbfix á að reisa kolefnisförgunarstöð í sveitarfélaginu. Lögð er áhersla á að máli verði unnið í samvinnu við íbúa en áform Carbfix um kolefnisförgunarstöð í Hafnarfirði hefur mætt harðri andstöðu þar.

Viljayfirlýsing sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarsjóðs Þorlákshafnar, Carbfix, Coda Terminal og Veitna um samstarf um úttekt á forsendum uppbyggingar og reksturs kolefnisförgunarstöðvar í Ölfusi var lögð fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Tók bæjarráðið jákvætt í erindið og lýsti yfir stuðningi við viljayfirlýsinguna sem verður gerð opinber íbúum til kynningar á næstunni.

Áformin fela í sér að tekið yrði á móti koltvísýringi og honum dælt niður í jörðina og bundinn þar varanlega með Carbfix-tækninni. Carbfix stefnir að því að reisa slíka stöð við Straumsvík í Hafnarfirði sem fargaði koltvísýringi sem fluttur yrði til landsins. Koltvísýringurinn kæmi frá iðnaðarferlum þar sem erfitt er að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegundarinnar en ekki frá bruna á jarðefnaeldsneyti.

Carbfix-tæknin var þróuð við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi þar sem um 75.000 tonnum koltvísýrings hefur verið dælt niður á vinnslusvæði virkjunarinnar frá 2012. Með þeirri aðferð hefur tekist að binda meirihluta koltvísýrings- og brennisteinslosunar frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun.

Coda Terminal, kolefnisförgunarstöðin í Hafnarfirði, á að geta bundið að hámarki þrjár milljónir tonna af koltvísýringi á ári þegar hún verður fullbyggð.


Tengdar fréttir

Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix

Andra Snæ Magnasyni rithöfundi finnst of langt gengið í að hneykslis- og glæpavæða áform Carbfix um að dæla niður koltvísýringi í Straumsvík. Honum finnst umræðan komin út fyrir gagnrýni og komin í eyðileggingarstarf og niðurrif.

Furðar sig á blekkingar­brigslum Heimildarinnar

Framkvæmdastjóri Carbfix segist undrandi á umfjöllun Heimildarinnar þar sem fyrirtækið er sakað um að blekkja Hafnfirðinga um starfsemi sína. Umfjöllunin sé uppfull af rangfærslum sem vegi að heiðri starfsfólks fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×