Sport

Safna milljónum fyrir skúrk mót­herjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Andrews er hér búinn að missa boltann á lokasekúndum leiksins og Baltimore Ravens var þar með úr leik í úrslitakeppni NFL.
Mark Andrews er hér búinn að missa boltann á lokasekúndum leiksins og Baltimore Ravens var þar með úr leik í úrslitakeppni NFL. Getty/Kevin Sabitus

Það er því miður alltof algengt að skúrkar í íþróttum verði fórnarlamb netníðs og hótanna. Fréttir frá Buffalo í Bandaríkjunum eru því jákvætt innlegg í baráttuna gegn slíkum ósóma.

Mark Andrews, innherji Baltimore Ravens, missti boltann á úrslitastund í leik Ravens og Buffalo Bills í úrslitakeppni NFL deildarinnar um síðustu helgi. 

Ósáttir stuðningsmenn hans liðs úthúðuðu honum með miður skemmtilegum hætti á samfélagsmiðlum eftir leikinn. Hann og fjölskylda hans fengu einnig líflátshótanir eftir leikinn. Amdrews fékk aftur á móti mikla samúð frá stuðningsmönnum mótherjanna í Buffalo Bills.

Baltimore Ravens hefur verið eitt allra besta lið NFL deildarinnar síðustu ár en aldrei gengið vel í úrslitakeppninni. Þarna rann því enn eitt tímabilið þeim úr greipum.

Hefði Andrews gripið boltann þá hefði liðið jafnað leikinn og tryggt sér framlengingu. Þess í stað fagnaði Buffalo Bills 27-25 sigri og mætir Kansas City Chief í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar um komandi helgi. Liðið er nú bara einum sigri frá Super Bowl.

Stuðningsmenn Bills vildu sýna leikmanninum stuðning í verki og fóru eftir leikinn að safna pening fyrir góðgerðasamtök leikmannsins á GoFundMe vefnum.

Bandarískir miðlar segja að það hafi nú safnast meira en 75 þúsund Bandaríkjadalir fyrir samtökin eða meira en tíu og hálf milljón íslenskra króna.

Góðgerðasamtök Andrews styðja sjálf við bakið á fólki með sykursýki og leitast eftir því að auðvelda fórnarlömbum sjúkdómsins lífið.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×