Embættið staðfestir þetta í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu.
Páll Steingrímsson, fyrrverandi skipstjóri hjá Samherja, lagði fram kæru á niðurfellingu rannsóknar lögreglunnar á Norðurlandi eystra til ríkissaksóknara í október í fyrra. Rannsóknin hafði þá staðið yfir í rúm þrjú ár en hún snýr að meintri byrlun Páls, afritun upplýsinga af síma hans og dreifingu á kynferðislegu myndefni sem á símanum var.
Sjá einnig: Páll leitar til ríkissaksóknara
Sjö höfðu réttarstöðu sakbornings í málinu. Þau voru fyrrverandi eiginkona Páls og svo sex blaðamenn. Eiginkona hans fyrrverandi játaði að hafa byrlað Páli, stolið síma hans og afhent blaðamönnum en málið var ekki talið líklegt til sakfellingar og því ákveðið að fella það niður.
Blaðamennirnir sem höfðu réttarstöðu sakbornings störfuðu hjá Ríkisútvarpinu, Kjarnanum og Stundinni. Miðlarnir tveir síðarnefndu sameinuðust svo seinna í Heimildina.
Ríkisútvarpið segir það vera mat ríkissaksóknara að taka skuli aftur upp rannsókn á aðkomu eiginkonunnar fyrrverandi að meintum brotum gegn lögum um friðhelgi einkalífsins og að dreifingu á kynferðislegu myndefni. Ríkissaksóknari taki þó undir að rétt hafi verið að hætta rannsókn að aðkomu hennar að meintri byrlun.