Körfubolti

Pétur stígur til hliðar hjá Kefla­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pétur hefur stýrt sínum síðasta leik sem þjálfari Keflavíkur.
Pétur hefur stýrt sínum síðasta leik sem þjálfari Keflavíkur. Vísir/Jón Gautur

Pétur Ingvarsson hættur sem þjálfari Keflavíkur í Bónus deild karla í körfubolta. Frá þessu greinir Keflavík á samfélagsmiðlum sínum.

Í tilkynningu Keflavíkur segir:

„Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og Pétur Ingvarsson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að Pétur stígi til hliðar sem þjálfari liðsins.“

Pétur hafði gert góða hluti með Breiðablik og spilað einn skemmtilegasta bolta deildarinnar áður en hann tók við Keflavík á síðasta tímabili.

„… óhætt að segja að hann hafi komið með ferskan blæ og hafði strax mikil og jákvæð áhrif á klúbbinn í heild sinni,“ segir einnig í tilkynningu Keflavíkur. Þá stýrði hann liðinu til sigurs í VÍS-bikarnum en um var að ræða fyrsta bikartitil Keflvíkinga frá árinu 2012. Jafnframt komst liðið í undanúrslit – og fór þar í oddaleik – á Íslandsmóti karla í körfubolta.

Síðasti leikur Péturs með Keflavíkurliðið var tap gegn KR í Vesturbænum. Gagnrýndi hann dómarana að leik loknum en honum fannst full mikið að tveir af þremur dómurum leiksins kæmu frá Njarðvík.

Keflavík er sem stendur utan úrslitakeppninnar eða í 9. sæti Bónus-deildar karla þegar sextán umferðum af 22 er lokið. Liðið hefur aðeins unnið sjö leiki í Bónus-deildinni það sem af er leiktíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×